laugardagur, 2. júní 2007

Afi

Ég hugsa oft um afa með söknuði í hjarta. Afi var stór hluti í lífi mínu þar sem ég ólst upp hjá honum. Hann sá um mig alla daga á meðan amma var í vinnunni og fór sjálfur í vinnu á næturna. Hann var viljugur að leika við mig og er það honum að þakka (eða kenna kannski) hversu gaman mér finnst að spila. Hann kenndi mér marga spilaleiki og spiluðum við mikið á daginn. Þar sem hann vann á næturna, þá var hann oft þreyttur á daginn og lá mikið fyrir. En hann fann samt uppá leik þar sem hann gat legið við að leika við mig. Hann fann uppá "fiðrildi" sem hann lék með hendinni. Fiðrildið flaug um og ég sá um fiðrildið eins og dúkku. Gaf því að borða, klæddi það í föt og svæfði það. Hann kenndi mér mörg lög sem við sungum saman. Ég man eftir einu atviki sem við hlógum að lengi á eftir. Við vorum að syngja "Þorraþræl" (Nú er frost á fróni) og sungum við það stanslaust aftur og aftur og aftur. Allt í einu hringir síminn og ég stekk up og hleyp og svara símanum. En í stað þess að segja "halló" segi ég: "Nú er frost á fróni!" Ég var frekar skömmustuleg en þetta var jafnframt mjög fyndið.

Þegar ég minnist afa, þá hugsa ég ekkert alltaf bara um það góða. Það er ekkert að því að hugsa eða tala um horfin ástvin hvort sem það er gott eða slæmt. Ég trúi því að afi sé núna á góðum stað og viti nákvæmlega hvað hann gerði rétt og hvað rangt á tíma sínum á jörðinni. Hann átti erfitt skap eins og allir vita og má kannski kenna þunglyndi um sem var kannski ekki greint nema af fjölskyldunni. Hann var náttúrlega ekki mikið fyrir "vitleysu eins og sálfræðinga" eða í neitt í þá átt fyrr en kannski seint á hans lífsleið. Örugglega ekki fyrr en ég fór sjálf til eins slíks.

Afi hafði samt góðan húmor og var alltaf að glettast og það er það sem ég minnist mest. Ég held að afi og Dan hafi fljótlega komist að því að þeir áttu vel saman og er það með furðu þar sem afi kunni ekkert í enskunni. En þeir gátu samt hlegið mikið að hvor öðrum. Dan var núna að spyrja mig um hvað ég væri að blogga og sagði ég honum að þetta væri afmælisdagur afa og væri ég að blogga um hann. Dan stakk tungunni út úr sér ullandi á mig og sagði: "He used to do this"... (hann var vanur að gera þetta) hehe. Það var annað sem afi kenndi Dan. Afi pirraði mig stundum með spurningum og þegar ég svaraði já eða nei, þá dró ég svarið á þann hátt: "jaaaaaaá" eða "neeeeeei". Afi svarað mér einu sinni þannig og var að stríða mér þegar Dan var hjá okkur og fannst Dan þetta fyndið. Hann notar þetta stundum á mig og segir hann við mig "jaaaaaaá" eða "neeeeeei".

Ef hlutir gerast sem ég veit að afa hefði fundist gaman að þá hugsa ég til hans. Ég fann nýlega tölvuforritið "Google Earth" þar sem hægt er að finna staði alls staðar á jörðinni eins og maður væri að fljúga yfir það og hægt er að fara alveg niður á götu. Þetta hefði afa fundist svakalega gaman að skoða og myndi áreiðanlega sitja yfir lengi ef hann hefði haft getu til. Honum fannst gaman að landafræði og var oft að skoða landakort. Honum fannst gaman að ferðast og hefði gert meira af því á sínum yngri árum ef hann hefði ekki verið svo hræðilega hræddur við að fljúga. En ég veit að núna getur hann séð yfir allt og alla og er ánægður og frískur.


Til hamingju með daginn afi.




6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já, ég man líka eftir öllum tröllasögunum sem hann sagði mér þegar hann passaði mig. Eftir að ég neitaði að mæta til dagmömmu. Þá láum við saman uppí rúmi og hann sagði mér tröllasögur..

Svo alltaf þegar ég fæ einkunnir verður mér hugsað til hans, hann lagði mikið upp úr þeim og var alltaf ákaflega stoltur

Sigga sagði...

Jahá ég veit að hann er svakalega stoltur af þér Berglind. Hann var alltaf að segja hvað þú værir svakalega dugleg í skólanum og var svakalega ánægður.

Nafnlaus sagði...

Hér sit ég og hágræt þegar ég les þetta um pabba/afa það er svo skrýtið að ég sakna hans alltaf meira eftir því sem frá líður. En þannig er það bara. Blessuð sé minning hans

Nafnlaus sagði...

Já, ég veit hvað þú meinar mamma. Ég tárast alltaf þegar ég hugsa um hann, en ég tek það ekki sem slæman hlut. Það er bara hluti af manni að hafa tilfinningar sem brjótast út. Ég sakna hans, en ég veit jafnframt að hann er á betri stað núna, fylgist með okkur og við hittum hann seinna ;)

Nafnlaus sagði...

mér finnst alltaf erfitt að lesa einhvað svona um hann afa minn.. ég man eftir öllum uppnöfnunum sem hann gaf fólki sem átti títt veg um götu háaleitisbrautar.. eins og maðurinn sem átti bláa vörubílinn sem var geymdur fyrir utan hja ömmu og afa ..Maðurinn sem átti hann var kallaður " bláman "..en miðað við það hve veikur hann var orðinn ..held ég að hann hafi verið feginn að fá að fara á betri stað í veröldinni

já Berglind ég hugsa líka um hann Afa-Kalla þegar ég fæ einkannirnar mínar, Hann var alltaf að biðja mig að standa mig eins vel og ég get

Nafnlaus sagði...

Ég er ekkert betri en þið, hér sit ég og grenja úr mér augun og sé ekkert það sem ég er að skrifa. Mikið er nú gaman að rifja upp stundir með þeim gamla, þó að þær hafi verið okkur báðum erfiðar á mínum unglingsárum . En það var nú þá :) Eftir situr traustur og góður kall sem við öll getum verið stolt af og elskum alla tíð.
Sigga mín farðu nú að blogga nú er ég komin með tölvu sjálf og get lesið þegar mér hentar!!