mánudagur, 26. febrúar 2007

21. febrúar fórum við svo á fund sérfræðinga á vegum þessarar nefndar til að ræða um útkomuna og hvað þeir ráðlögðu um framhaldið. Fundurinn var haldinn klukkan 8:30 og þurftum við að vekja Henry Hermann. Móðir og sonur voru frekar sybbin, en þetta hafðist nú allt saman og eftir að við borðuðum morgunverð þá vorum við búin að jafna okkur aðeins.

Það hafði snjóað aðeins dagana áður og þegar við komum á áfangastað þurftum við að bíða í um hálftíma þar sem starfsfólk var seint vegna "færðar". Á biðstofunni var dót og tímarit. Henry Hermann sá ekki dótið enda eru tímaritin miklu meira spennandi og var hann mjög upptekin við að lesa öll þessi blöð.

Loksins kom svo kona og sagði okkur að fylgja henni inn í eina stofuna. Þar voru þrjár aðrar konur, ein af þeim sálfræðingur. Það var fullt af dóti í stofunni og Henry Hermann fór strax að skoða dótið. Konurnar ræddu skýrsluna sem var skrifuð um hann og okkur var send heim. Þær spurðu okkur hvort við værum sammála útkomunni og ef það var eitthvað sem við vorum ósammála. Við vorum að mestu sammála nema eitt sem ég nefndi og það var að þær hefðu skrifað að hann sýndi athyglisskort. Ég sagði að það hefði verið svo margt nýtt fyrir hann í prófunum og í kringum hann, en í venjulegu umhverfi gæti hann dundað við sama hlutinn lengi. Ein konan punktaði það niður hjá sér.

Þær sögðu okkur frá prógrammi sem þær ráðlögðu okkur að setja hann í. Þetta væri á vegum skólanna í sýslunni og þær myndu finna þann skóla í hverfinu okkar sem hefði þetta prógram ef við vildum setja hann í það. Þetta prógram er á forskólastigi og er fyrir börn sem eru á eftir jafnöldrum sínum og undirbýr þau fyrir það stig. Venjulegur forskóli er fyrir 5 ára börn.

Í þessu prógrammi eru tveir kennarar í einum bekk með 10 börn. Henry Hermann fær svo talkennara að auki. Þetta er alla virka daga í 2 1/2 tíma á dag. Talkennarinn er í 45 mínútur af þessum tíma. Henry Hermann getur byrjað 7. mars ef við ákveðum að setja hann í þetta.

Dan hafði áhyggjur af því að ef hann færi í þetta prógram þá fylgdi það honum eftir og hann kæmist ekki úr því jafnvel þó hann þyrfti ekki lengur á því að halda einhvern tímann á skólastiginu. Hann þekkti til þess úr Norður Karólínu að fólk sem hefði þurft á einhvers konar prógrammi að halda sem börn, hefði ekki verið leyft að taka það sem jafngildir samræmdum prófum til að komast í framhaldsskóla. Það væri stimpill á þeim sem segði að þau ættu í erfiðleikum með að læra. Ef þau færu í framhaldsskóla þyrftu þau að taka tvö auka ár bara til að taka þessi fög. Allar konurnar sannfærðu okkur um að það væri ekki svoleiðis, allavega ekki í þessarri sýslu og þekktu þær til fleiri staða í landinu sem þetta væri ekki svona. Þetta prógram sem þær voru að ráðleggja í fyrsta lagi var bara þangað til hann færi í 1. bekk grunnskóla og ef hann þyrfti ekki lengur á aðstoð að halda eftir það, þá væri skýrslan um hann læst. Þó hann færi svo í annað prógram þegar hann færi í grunnskóla, þá myndi hann fara úr því hvenær sem hann þyrfti ekki lengur á því að halda eða þangað til hann færi í "high school" (jafngildir gamla gagnfræðaskólanum).

Mér fannst þessi fundur mjög góður og var nokkur léttir fyrir mig að heyra að það væri eitthvað hægt að gera fyrir litla skinnið mitt. Það yrði mjög erfitt fyrst bæði fyrir móður og son en þegar á heildina er litið þá þetta best fyrir strákinn. Ekki bara vegna sérkennslunnar heldur líka að hann yrði í kringum önnur börn. Við Dan ræddum þetta eftir að við komum heim og hann samþykkti einnig að þetta væri best fyrir hann.

En það var einn svartur blettur á þessu. Var þessi blettur mjög stór í augum móðurinnar. Þar sem við höfum ekki bíl, þá yrði hann að fara í skólastrætó í og úr skóla. Þetta yrði í fyrsta skipti sem ég er ekki með honum. Bara það að skilja hann eftir einhvers staðar verður bæði erfitt fyrir hann og mig hvað þá að setja hann í strætó þar sem hann er keyrður í burtu. Það getur ekki verið gott fyrir hann að vera "tekinn í burtu". Það er annað að "skilja hann eftir" þar sem hann er þá kyrr. Ég tel að það sé slæm tilfinning fyrir börn sem hafa aldrei verið án foreldra að finnast þau verða tekin í burtu.

Við Dan komumst að samkomulagi. Fyrst förum við náttúrlega á fund kennaranna í skólanum. Henry Hermann verður með og sér þá umhverfið í fyrsta skiptið. Fyrstu tvo dagana ætla ég svo að keyra hann í skólann þar sem hann verður náttúrlega skilinn eftir. Ég sæki hann svo aftur. Þá ætti hann að sjá að þetta er í lagi. Þriðja daginn keyri ég hann, en hann tekur strætóinn heim. Ég tel að það sé best að hann fari í strætó í fyrsta skiptið á leið heim þar sem þetta nýja fyrirbæri tekur hann á kunnuglegan stað og til mín. Næsta skóladag sér hann strætóinn og tengir hann skólanum og ætti að muna að það er allt í lagi, þar sem á endanum tekur strætóinn hann á kunnugan stað. Þetta er ekki eins og venjulegur skólastrætó þar sem krakkarnir fara aleinir bara með bílstjóra. Starfsmaður skólans kemur með strætó og hjálpar honum í sætið þar sem verður bílstóll fyrir hann og fylgir honum bæði í skólann og heim.

Við höfum ekki enn fengið símtal frá skólanum þannig að við vitum ekkert meira að svo stöddu. Við bara bíðum og vonum það besta :)

Bless að sinni.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta var ekki ég, veit ekki afhverju þetta Guggu nafn er þarna.

Nafnlaus sagði...

Sigga ég held ég sé með rugluna skrifa bara einhverja vitleysu.þetta var ég.

Nafnlaus sagði...

Æ mamma mín... þú allavega skemmtir okkur systrum Auði og mér. Ég sendi henni msn skilaboð spurði hvort ég þekkti einhverja Guggu. Við hlógum þegar við sáum að þetta var bara hún mamma okkar... hahah.

Unknown sagði...

Mamma, á maður að hafa áhyggjur af þér ..... Nú held ég að þú sért gjörsamlega búin að tapa þér!!!
Mbk, Auður

Unknown sagði...

Það verður frábært fyrir Henry að komast í skóla, en ég tel mjög líklegt að það verði mjög erfitt fyrst.

Eins og mamma segir, ekki gefast upp. Það tók mig meira en mánuð, næstum tvo mánuði að venja Evu Maríu á leikskóla, en það tók bara 3 daga að venja Söru Lind. Ekki gefast upp þó hann gráti eða hlaupi á eftir þér, það er svo fullkomlega eðlilegt. Skárra væri það nú, þeim þykir nú einu sinni svolítið vænt um mömmurnar!

Mbk, Auður

Nafnlaus sagði...

Já ég veit að þetta verður erfitt. Og ég grenja örugglega meira enn Henry Hermann. En maður verður að hugsa um "big picture". Þetta er það sem hann þarf.

Nafnlaus sagði...

Já, hún mamma okkar var eitt spurningamerki í framan þegar ég kom til hennar áðan. " Afhverju stendur Gugga hérna?"
Ekki veit ég hvernig henni tokst að gera það... En svo segi ég henni bar aað skrifa nýtt.. það tekur hana auðvitað svona kortér að gera það þar sem engin innsláttarvilla má vera... En third time´s the charm... :p
litla ljóskan hún mamma...

En já, þetta er bara gott mál með skólann, hann hefur örugglega bara gaman að þessu þegar á líður :) Að hitta alla krakkana...

Nafnlaus sagði...

Hahahah