föstudagur, 2. mars 2007

Skólabjallan hringir

Í gær fékk ég hringingu frá konu í greiningarnefndinni sem greindi Henry Hermann. Hún var að spyrjast fyrir um hæð og þyngd Henry Hermanns til að geta fundið réttan bílstól fyrir hann í strætóinn. Hún vildi einnig fá nafn og númer þriðja aðila ef upp kemur neyðartilfelli. Ég sagði henni að við hefðum í raun engan nema á Íslandi og hún sagði að það gengi ekki upp. Það yrði þá að vera einhver samstarfsaðili Dans. Ég sagði henni að við myndum hafa samband við hana í dag með þær upplýsingar sem hana vantaði. Það er alveg á síðasta snúning að hafa þetta allt tilbúið ef hann á að geta byrjað á þessu skólatímabili sem byrjar í næstu viku. Ég sagði svo Dan frá þessu þegar hann kom heim og ákváðum við að hafa fyrrum yfirmanns Dans sem þriðja aðila. Hann heitir Thomas Dudley.

Í morgun hringdi svo Dan til baka í Debbie frá nefndinni og gaf henni upplýsingarnar. Svo var hringt í hann frá skólanum sem heitir Stonemill Elementary School. Hann er bara hérna rétt á bak við okkur, u.þ.b. þriggja mínútna keyrsla. Ef þið munið eftir byggingunni sem var verið að byggja hinum megin við innkeyrsluna að hverfinu okkar, þá er skólinn í hverfinu á bak við þá byggingu. Alls ekki svo langt frá. Meredith heitir konan sem hringdi og er hún í PTA nefnd. (Parent Teacher Association = Foreldra- og kennaranefnd). Hún gaf okkur viðtalstíma á miðvikudaginn 7. mars. Í þessum viðtalstíma vill hún fá ýmsar upplýsingar um Henry Hermann, t.d. hvað myndi hann borða í snakktíma, hvernig bregst hann við mótbyr, tekur hann bræðisköst og ýmislegt í þessum dúr. Við fáum líka að sjá og tala við kennarana, sjá skólastofuna og Henry Hermann fær líka aðeins að leika sér í kennslustofunni og kynnast aðeins. Hann myndi svo byrja í skólanum daginn eftir, 8. mars. Þeir sögðu okkur að rútan myndi örugglega ekki vera tilbúin að taka við honum fyrr en helgina eftir að hann byrjar í skólanum, en Dan sagði að það væri allt í lagi því við vildum hvort eð er keyra hann í skólann fyrstu dagana.

Það verður gaman að sjá hvernig þetta gengur allt saman og læt ég ykkur fylgjast með.

4 ummæli:

Unknown sagði...

Frábært. Nú er litli karlinn bara að verða stór skólastrákur. Líka gott að skólinn sé svona nálægt. En fyrst að þetta er svona nálægt, er þá ekki hægt að rölta með hann í skólann þar til hann er orðinn nægilega öruggur að hann sé tilbúinn í rútuna? Er þetta ekki bara korters ganga eða svo?

Hlakka mikið til að heyra hvernig fyrstu dagarnir ganga.

Mbk, Auður

Nafnlaus sagði...

Ég hugsa að þetta gæti verið svona u.þ.b. 30 min ganga með Henry Hermann. Svolítið langt fyrir litla guttann hugsa ég, en það er samt nógu nálægt þannig að ef eitthvað kæmi uppá og ég þyrfti að ná í hann, þá er hægt að ganga.

Nafnlaus sagði...

Nafnlaus sagði...

Það er gaman að geta lesið um ykkur frá degi til dags og fylgst með þessum tímamótum hjá ykkur.
Þetta mun örugglega allt ganga vel