þriðjudagur, 6. mars 2007

Stone Mill Elementary School

Í fyrradag tókum við okkur til öll þrjú og ákváðum að æða út í kuldann og finna skólann hans Henry Hermanns. Það var gjóla úti og hitinn um frostmark. Það gerði ekkert til, ég á svo svaka góða kápu sem nær niður á hné og hefur risastóran kraga, þannig að ef ég dreg kragann upp þá nær hann svo hátt upp að það sést aðeins í augun. Svo var ég náttúrlega með húfu og vettlinga. Henry Hermann passar ennþá í úlpuna góðu frá ömmu og afa og klæddist hann henni ásamt góðri flíshúfu og flísvetlinga. Við vorum svo bæði í millibuxum. Dan var ekki í "longjohns" eins og þeir segja hérna í Ameríkunni, sem er millibuxur fyrir karlmenn, en hann var með derhúfu og setti svo hettuna á úlpunni hans yfir. Við vorum semsagt vel tilbúin í að takast á við kuldabola.

Gangan í skólann tók 20 mínútur og arkaði Henry Hermann eins og herforingi mest alla leiðina. Við þurftum að fara yfir götu tvisvar sinnum og þá hélt Dan á honum og það var allt og sumt. Mesta umferðargatan er Shady Grove Road, sem er gatan hjá okkur og það er engin umferðarljós eða gangbraut yfir þá götu. En það er eyja þannig að við getum hlaupið yfir og beðið svo á eyjunni til að fara yfir restina.

Þó að þetta sé skólinn sem er næst okkur þá tilheyrir hann samt ekki Rockville. Bæjarfélagið heitir North Potomac og er það talið bæjarfélag "ríka fólksins". Það var líka auðsjáanlegt því það var ekkert nema risahús alla leiðina að skólanum. Við eitt húsið tók ég meira að segja eftir 3 BMW bílum, einn af þeim var SUV eða það sem við myndum kalla jeppa.
Þegar við komum að skólanum tókum við eftir fullt af bílum á bílastæðinu og veltum við fyrir okkur hvað skyldi vera um að vera. Fyrst röltum við í kringum skólann og skoðuðum lóðina. Það voru fullt af leiktækjum á svæðinu og þurfti Henry Hermann náttúrlega að kanna þetta allt saman. Hann renndi sér 2 ferðir í einni rennibrautinni sem minnti svolítið á klifur og rennibrautina sem hann prufaði á leikskólanum hennar Evu Maríu. Eftir þetta héldum við áfram göngunni í kringum skólann.
Við ákváðum svo að nota tækifærið fyrst skólinn var opinn að rölta inn og skoða hann að innan. Skrifstofan er það fyrsta sem við sjáum á vinstri hönd þegar við komum inn. Beint af augum er langur gangur. Til hægri á þessum gangi sáum við 2 kennskustofur og kaffistofu kennara. Á vinstri hönd eru salerni, og stendur "GIRLS" og "BOYS" í alls konar litum við sína hvora dyr. Svo komum við að sal á vinstri hönd og þar er fullt af krökkum og foreldrum og sjáum við að stelpuskátar eru að undirbúa einhvers konar atriði. Við stöldruðum hins vegar ekki við nógu lengi til að sjá atriðið. Við héldum heldur lengra og við hliðina á salnum var leikfimisalur þar sem körfuboltaleikur var á fullu. Það lifnaði yfir Henry Hermanni þegar hann sá þessa 10 ára stráka leika sér með bolta. Hann hefði örugglega ekkert haft á móti því að skjóta nokkrar körfur. Á enda gangsins var svo stigi upp á næstu hæð þar sem ég giska á að flestar kennslustofurnar voru. Við fórum hins vegar ekki upp til að skoða það neitt nánar.
Við héldum svo til baka á leið út en þegar við komum að útidyrunum var Henry Hermann ekkert á því að fara neitt heldur ýtti okkur til baka. Við fórum til baka og leyfðum honum að horfa aðeins lengur á körfuboltaleikinn. Svo var rölt til baka heim. Það var að sjá á Henry Hermanni að honum líkaði þessi staður og vonum við að hann haldi þeirri skoðun.
Kveð að sinni,
Sigga

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég skil ekki alveg.. Hvaða aldur er í þessum skóla eiginlega.. alveg uppí 10 ára?

Hérna er 10 stiga hiti og bara glampandi sól.. allavegana í svona klst í dag.. :D

Er þetta flotta hverfið sem við sáum þegar við týndumst og ég hélt að ég myndi kafna úr hita?

Nafnlaus sagði...

Þetta er grunnskóli. Krakkar frá 1.-9. bekk. Henry Hermann er að fara í sérkennslu og er fyrir krakka sem eru á eftir og er til að undirbúa þá undir grunnskólakennslu.

Nei, þetta er ekki það hverfi en húsin eru í svipuðum stíl. Við þurfum að fara yfir Shady Grove Road og þar upp... sömu megin og Human Genome fyrirtækið (íslensk erfðagreining kind of lol)