þriðjudagur, 1. maí 2007

Lasinn

Henry Hermann fékk hálsbólgu og hita fyrir u.þ.b. tveim vikum. Hann var fljótur að losa sig við það, en hann er búinn að vera með nefrennsli síðan þá. Síðasta sunnudagskvöld var hann svolítið ónógur sjálfum sér og greip stundum í eyrað á sér og sagði "á". Ég tók líka eftir því að hann var hættur að geta snýtt úr vinstri nösinni, þó hún væri svo stífluð að hann gat ekki andað í gegnum hana. Það sást samt ekki neitt með berum augum og ég var svolítið smeik um að það væri með hann eins og mig þegar það festist í kinnholunum á mér. Hann svaf illa um nóttina, var alltaf að vakna grátandi.

Um morguninn var hann ekki eins órólegur og hann var ekki með hita. Ég ákvað því að láta hann fara í skólann þar sem ég veit að honum finnst voða gaman þar. Eftir að ég hafði skilað honum af mér í strætó hringdi ég í Dan og bað hann um að hringja og athuga hvort við gætum fengið tíma hjá læknininum hans Henrys Hermanns. Við fengum tíma klukkan 16:30. Við vorum ekki með bíl, en Dan ætlaði að fara fyrr heim úr vinnunni og labba með okkur til læknisins. Við ætluðum að hittast við Giant matvörubúð.

Klukkan 15:30 gengum við Henry Hermann úr bílskúrnum og þá hringdi Dan. Strætó hafði bilað á miðri hraðbraut. Hann var því fastur þar þangað til þeir sendu annan strætó, sem gæti tekið a.m.k. hálftíma og svo áttu þau eftir að keyra í áttina heim. Við Henry Hermann urðum því að fara ein og ég hafði ekki hugmynd um hvaða leið ég átti að fara til læknisins. Dan reyndi að segja mér leiðina í gegnum símann og svo var bara að vona það besta. Með þetta lagði ég svo af stað með Henry Hermann í kerrunni sinni.

Leiðbeiningarnar hans Dans voru mjög góðar og var ég ekki í vandræðum með að finna bygginguna. Þegar ég var svo komin að læknamóttökunni spurði konan mig hvaða "co-pay" við hefðum. Ég var eitt spurningamerki, bað hana um að endurtaka og hún spurði aftur hvaða "co-pay" við hefðum. Ég spurði hvað "co-pay" væri og þá spurði hún mig á "mannamáli" hvað værum við vön að borga. Tryggingarnar borga alltaf en það er alltaf ákveðin upphæð sem sjúklingar þurfa að borga við læknisskoðun og fer það eftir tryggingafélaginu. Ég vissi það, en hafði aldrei heyrt þetta orðatiltæki. Fyrir utan það að mér finnst að læknastofan ætti að hafa þessar upplýsingar tiltækar miðað við öll þau eyðublöð sem maður þarf að fylla út í hvert skipti sem maður gengur inn á stofuna, svo ekki sé minnst að þau hafa jú tölvukerfi. (Ameríka...grrr.) Þetta sem sagt reddaðist, ég borgaði 20 dollara og svo settumst við Henry Hermann niður og biðum eftir að við værum kölluð upp.

Ég var afar stolt af mínum strák. Það var einn pabbi á biðstofunni með þrjár stelpur og þær voru að gera hann vitlausan. Þær hafa verið svona á bilinu 3-6 ára. Þær gegndu engu sem hann bað þær að gera. Ein sat á miðju gólfi og hlustaði ekki á þegar hann bað hana um að standa upp. Hinar tvær voru að pota í nefið á honum og í eyrun. Minn strákur hins vegar sat hinn stilltasti í stólnum. Hann benti mér á tímarit sem héngu í hillum upp á vegg og vildi að ég gæfi honum eitt að skoða. Ég lét hann hafa eitt og þegar hann var búinn að skoða það, lét hann mig hafa það til baka og benti aftur á hilluna. Hann fór aldrei úr stólnum sínum.

Það kom svo að því að við vorum kölluð inn. Læknirinn skoðaði eyrun, hálsinn og nefið. Það kom í ljós að hann var með eyrnabólgu. Hann var líka kominn með svolítinn hita. Við fengum því sýklalyf sem Henry Hermann þarf að taka í tíu daga, tvisvar á dag. Þetta er fljótandi meðal og er með appelsínubragði þannig að ég blanda því saman í djúsinn hans og hann drekkur það þannig. Hann fór ekki í skólann í dag, en ég ætla að sjá til hvort hann verði með hita í kvöld og meta hvort ég læt hann fara í skólann á morgun.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég vona að sýklalyfin virki fljótt og að honum fari að batna.

Ég gat ekki annað en glott þegar ég las lýsinguna á pabbanum með stelpurnar þrjár á biðstofunni. Þetta gæti nú alveg verið lýsing á okkar ágætu fjölskyldu þegar við bíðum eftir lækninum. Eva María og Sara Lind eru vanar að nota biðstofuna í Lágmúlanum sem hlaupabraut og sófana sem trambolín ... Svo spjallar Eva María hátt og snjallt við hina krakkana á biðstofunni um allt milli himins og jarðar. Það er því sjaldnast rólegt á biðstofunni þegar við mætum ...

Bestu kveðjur til ykkar allra
Auður

Nafnlaus sagði...

HAHAHAHHAHAHAHHAHAHHAHAHAHAHA Auður ég sé þetta svoooo fyrir mér.. maður þyrfti allavegana 3 á hvora stelpu til að halda þeim skikkanlega á einum stað..

Vona að hann nái sér fljótt og geti farið að skemmta sér í leikskólanum bráðlega

Nafnlaus sagði...

HAHA..Auður sko:'D..vona að honum batni;D

Nafnlaus sagði...

Gat ekki annað en brosað við umhugsunina um litlu snúllurnar...
Btw... mig grunar að nafnlaus sé Brynjar... Hann er að leika mömmu.

Nafnlaus sagði...

Ég vona að þetta gangi fljótt yfir, og hann komist sem fyrst i skólann.


Kveðja Mamma/amma