Ég keyrði Henry Hermann í skólann. Það var mikil umferð við innkeyrslu skólans og það var vörður sem stjórnaði umferðinni við innkeyrsluna. Ég þurfti að bíða u.þb. 3 mínútur áður en ég gat keyrt að skólanum og var ég viss um að ég myndi ekki finna bílastæði. En viti menn, ég fann bílastæði en það voru þrír bílar fyrir framan mig og ég var viss um að ég myndi ekki fá þetta stæði. En heppnin var með mér, því flestir stoppuðu við inngang skólans til að hleypa krökkunum út. Við gengum svo að skólanum og við innganginn tók Meredith á móti okkur og gekk með okkur í kennslustofuna. Ég lét vita að ég vildi að skólastrætó keyrði hann heim og myndi svo keyra hann í og úr skóla það sem eftir væri.
Henry Hermann var mjög feiminn og ríghélt í mig, faðmaði mig og vildi ekki sleppa. Það tók hann u.þb. 5 mínútur þangað til hann fór að labba aðeins um. Melissa kennari gaf honum alla sína athygli þar sem það voru tvær aðrar konur til að sjá um hina krakkan. Tíu mínútum eftir að við komum í bekkinn kom svo kennari inn með slím. Það var kominn "listatími". Krakkarnir settust við borð, en Henry Hermann vildi fyrst ekki setjast. Melissa og ég hjálpuðumst að við að koma honum að borðinu en þegar hann settist snéri hann sér strax að mér og faðmaði mig aftur. Ég sagði við Melissu að það væri sennilega best að ég færi, annars myndi hann kannski ekkert taka þátt í neinu. Hún var sammála því.
Ég stóð því upp. Henry Hermann vildi standa upp líka, en við höfðum sett stólinn vel undir borðið og Melissa sat við hann til að passa að hann kæmist ekki. Ég tók kápuna af snaganum, vinkaði Henry Hermanni bless og hann byrjaði að gráta sárum gráti. En, ég reyndi að láta það ekki á mig fá og gekk út úr stofunni. 30 sekúndum seinna var ég komin að skólaskrifstofunni og klæddi mig í kápuna. Ekki var allt eins og það átti að vera. Mér fannst kápan svolítið skrítin. Þá áttaði ég mig á því að ég hafði farið í vitlausa kápu. Ég varð því að snúa við og fara aftur inn í kennslustofuna. Henry Hermann sat enn við borðið en var ekki grátandi. Hann sá mig og ég vinkaði aftur bless og hann bara horfði á mig fara út en grét ekki. Það var þungu fargi af mér létt og taldi ég það vera lán í óláni að ég hafði tekið vitlausa kápu, því annars hefði ég hugsað það versta um Henry Hermann. Í staðinn sá ég að það var allt í lagi með hann.
Henry Hermann kom svo með strætó heim. Ég tók svo á móti honum og hann leit út eins ekkert væri eðlilegra en að vera einn í strætó. Hann sýndi enga neikvæða framkomu eftir að hann kom heim. Hann var hins vegar uppgefin, borðaði restina af nestinu sem hann hafði haft með sér í skólann og svo fljótlega datt hann útaf og steinsofnaði. Melissa skrifaði í bókina að það hefði gengið vel fyrsta daginn, hann hefði ekkert grátið svaka mikið. Hann hefði hins vegar ekki viljað sitja kyrr við borðið með þeim og sagði hann hafa athyglisskort og myndu þau reyna að vinna í því.
Í dag fór hann svo í strætó í skólann. Þegar strætó kom hér fyrir utan, þá vildi hann helst ekki fara í hann. Bæði strætóbílstjórinn og aðstoðarkonan voru að tala við hann og hann var feiminn við þau. Ég hélt á honum upp í strætó og Chadi, bekkjarfélagi Henry Hermanns var í strætó. Þeir vildu samt ekkert tala við saman. Aðstoðarkonan setti svo Henry Hermann í bílstólinn og ég vinkaði Henry Hermanni bless. Hann horfði bara á mig fara en grét ekki.
Þegar hann kom heim aftur með strætó var eins og hann hefði aldrei gert neitt annað allt sitt líf heldur en að fara í skóla. Hann brosti til mín og var hinn ánægðasti. Melissa skrifaði að dagurinn í dag hefði verið mjög góður. Hann hefði ekkert grátið og sat miklu lengur með þeim við borðið. Hún sagði að kannski hefði athyglisskorturinn bara verið vegna þess að hann væri nýr og í nýju umhverfi. Ég hafði einmitt sagt það við Dan í gær að það væri ástæðan fyrir "athyglisskortinum". Venjulega vill hann ekki sitja við eitthvað sem honum finnst ekkert skemmtilegt. Hins vegar getur hann setið lengi við eitthvað sem honum finnst gaman að. Melissa skrifaði líka að hann hefði byrjað að sýna bekkjarfélögum sínum áhuga.
Ég get ekki verið ánægðari með hvernig þetta hefur allt saman gengið. Ég held að ég geti sagt að Henry Hermann er einstakt barn og er ég mjög stolt af honum. :)
föstudagur, 9. mars 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
æðislegt að heyra...
Mig dreymdi að þú og Henry væruð að flytja heim, ég varð ekkert svo hress þegar ég vaknaði og áttaði mig á því að svo var ekki... :(
Aaaaaawwwwwww :(
Mikið svakalega er gott að heyra að það gangi vel. Hann verður kannski farin að lesa fyrir þig áður en þú veist af :)
Ég vona að Berglind sé berdreymin!
Mbk, Auður
Sigga mín ekki gleyma að skrifa. það er orðið of langt síðan síðast.
Skrifa ummæli