fimmtudagur, 8. mars 2007

Skólaundirbúningur

Dagurinn byrjaði klukkan 10:00. Dan vakti Henry Hermann og gaf honum Cherios í morgunmat og mjólkurglas. Á meðan fór ég í sturtu og gerði mig klára. Það var kalt, hitastigið við frostmark og snjóflyksur á flögri svo við klæddum okkur vel og í hlý föt.

Viðtalstíminn okkar var klukkan 11:30 og við mættum á staðinn klukkan 11:20. Við fórum inná skrifstofuna og okkur var sagt að Meredith væri á fundi en kæmi þegar hún væri búin. Rétt fyrir hálf tólf kom hún svo inn. Hún fór strax með okkur inn í kennslustofuna hans Hernys Hermanns og þar voru krakkarnir að borða hádegissnarlið sitt. Það eru 7 krakkar í bekknum, einn kennari sem heitir Melissa, talkennari sem heitir Stacey og svo aðstoðarkennari sem er misjafnt hver er. Krakkarnir hafa mismunandi fötlun, en þau eiga það sameiginlegt að þau tala lítið sem ekkert. Krakkarnir eru allir strákar, en það er ein stelpa sem er fjölfötluð, þarf að vera í göngugrind og er í skólanum í 5 tíma á dag. Hún kemur í bekkinn í klukkutíma á dag.

Henry Hermann var náttúrlega feiminn við allar konurnar sem allar voru að reyna að tala við hann. En fljótlega fór hann að skoða dótið í kringum sig í rólegheitunum. Á meðan ræddum við við Meredith, Melissu og Stacey. Þær gáfu okkur fullt af eyðublöðum til að fylla út sem leyfir þeim að gera ýmsa hluti t.d. taka myndir af honum og ýmislega smáhluti sem okkur á Íslandi myndi ekki þykja mikið um, en í Ameríku þarf alltaf að hafa varann á til að forðast lögsókn. Við fengum möppu sem gengur á milli skóla og heimilis, þau gefa okkur blöð um það sem þau gerðu í skólanum og ef það er eitthvað sem við þurfum að senda skólanum þá setjum við það í möppuna og sendum til baka í skólann með Henry Hermanni. Einnig fengum við litla skrifbók sem gengur líka milli skóla og heimilis. Í þessa skrifbók skrifa ég hluti sem mér finnst þau þurfa að vita, t.d. ef Henry Hermann borðaði ekki morgunmatinn og myndi biðja þær að gefa honum að borða þegar hann kæmi í skólann. Eða ef hann svaf ekki vel og gæti verið þreyttur og pirraður, eða eitthvað annað sem mér finnst að þær ættu að vita. Melissa skrifar svo í bókina allavega einu sinni í viku, t.d. um það sem hann gerði í skólanum markvert og einhver tímamót urðu hjá honum. Sama myndi ég skrifa ef hann gerði eitthvað nýtt heima.

Krakkarnir fara út einu sinni á dag og einu sinni í viku sameinast þau krökkum sem eru á sama aldri í dagskóla sem er á skólalóðinni en er sjálfstætt rekinn. Krakkarnir í þeim skóla hafa enga fötlun. Starfsfólks dagskólans og sérkennarar í Stone Mill hafa gert samning sinn á milli að leyfa krökkunum að umgangast hvort annað einu sinni í viku í útileik.

Eftir þennan fund fórum við svo í verslunarleiðangur til að kaupa skólatösku og nestisbox. Það er heill hellingur sem Henry Hermann þarf að taka með sér fyrsta daginn. Stóra mussu eða slopp til að nota við subbuleg störf eins og að mála og svoleiðis. Þvottastykki, tannbursta og varasalva sem þau nota við nokkurs konar hreyfikennslu. Og svo náttúrlega bleyjur, blautþurrkur og aukafatnað yst sem innst.

Svo er bara að sjá hvernig fyrsti dagurinn fer.
Ég skrifa um það í næsta bloggi.

5 ummæli:

Unknown sagði...

Ég bíð spennt eftir frekari fréttum. En hvernig leist ykkur Dan á þetta allt saman?

Mbk, Auður

Sigga sagði...

Ég held að við séum enn að melta þetta. Við hefðum náttúrlega viljað að Henry Hermann gæti verið með krökkum sem gætu talað, vegna þess að ég hugsa að hann myndi apa eftir. En hann þarf á kennslu að halda og venjulegir dagskólar kosta bæði svaka pening og þeir taka venjulega ekki krakka á þessum aldri ef þeir eru enn á bleyju. Hins vegar sagði kennarinn þarna að meðalaldur stráka þegar þeir eru tilbúnir að hætta með bleyju er 3ja og hálfs. En, ég held að við verðum að bíða aðeins með að sjá að öðru leiti hvernig okkur líst á þetta allt saman.

Sigga sagði...

Btw... myndir frá skólanum hérna til hægri...

Unknown sagði...

Á Íslandi kostar frábær kennsla svaka lítinn pening ... Venjulegir skólar taka líka krakka inn alveg óháð því hvort þeir eru með bleiju eða ekki, enda komast flestir inn í kringum eins og hálfs ...

Bara svona að nefna það. Þrátt fyrir að skattarnir séu kannski hærri hér en í US, ertu klárlega að fá mun meira fyrir peninginn hér heldur en í villta vestrinu. Í stað þess að eyða skattpeningunum í stríð eins og gert er í US, er peningunum eytt í frábært heilbrigðiskerfi og enn betra skólakerfi.

Mbk, Auður

Nafnlaus sagði...

Get ekki sagt að ég sé ósammála þessu ;)