mánudagur, 21. maí 2007

Catoctin dýragarður

Það átti að fara í dýragarð í dag og var áætlað að vera klukkutíma lengur heldur en venjulegan skóladag þannig Henry Hermann gat ekki tekið rútuna heim. Ég ætlaði hvort eð er að fara með honum í dýragarðinn þannig að við vorum með bíl þessa helgi. Við fórum í skólann á venjulegum tíma, klukkan 9:15. Margir voru komnir en við þurftum að bíða eftir sumum, þannig að kennarinn hélt athyglinni hjá krökkunum sem voru komin með því að "fara í hring" sem þau gera á hverjum morgni. Henry Hermann fannst greinilega mjög skrýtið að hafa mig þarna en hann tók þátt í söngnum sem þau syngja alltaf á morgnana þegar þau segja "hæ" við alla í hringnum, en hann horfði stanslaust á mig og vildi sitja sem fastast við hliðina á mér. Ég mátti ekki hreyfa mig. Það var gaman að sjá hvað hann tók samt þátt í því sem kennarinn og krakkarnir voru að gera og syngja, og hann vissi alveg hvað átti að gera.

Rútan fór af stað klukkan 9:45. Keyrslan að dýragarðinum tók klukkutíma. Það var fullt af fuglum og öndum í garðinum, skriðdýr í búrum í eigin húsum og nokkrar apategundir, hver apategund í eigin búri. Það sem hélt athygli Henry Hermanns mest var tígrisdýrið. Það var bara eitt á svæðinu sem var nokkuð stórt og var vel girt af. Það eru víst ljón líka í garðinum en það var ekki hleypt að þeim af einhverjum ástæðum.

Eftir að við höfðum skoðað allan garðinn var farið að sýningarsvæði og sest niður og borðað hádegissnarl og horft á dýrasýningu. Fyrst var komið með eðlu og gekk starfsmaður dýragarðsins með eðluna á milli og leyfði þeim sem vildi klappa eðlunni. Ég klappaði henni, en Henry Hermann vildi ekkert með það hafa. Svo var komið með stærðar slöngu, sem reyndar þær sögðu að væri bara barn og yrði þrisvar sinnum stærri. Núna gæti hún bara borðað litlar mýs en þegar hún yrði fullorðin gæti hún borðað mann. Annar starfsmaður kom með lítinn krókódíl og máttu þeir sem vildu klappa bæði slöngunni og krókódílnum. Emm... við (ég) ákváðum bara að sitja kyrr og láta slönguna og krókódílinn eiga sig. Ég hélt að fyrst Henry Hermann vildi ekki klappa eðlunni, þá myndi hann örugglega ekki klappa þessum kvikindum.

Eftir þetta var svo heimsóknin búin og við fórum með rútunni til baka í skólann og svo beina leið í bílinn heim. Henry Hermann fékk sér kókómjólk að drekka þegar hann kom heim og lagðist svo niður og datt útaf alveg örmagna.

Skoðið myndirnar undir "myndir og videos". Það eru líka myndir frá helginni þar sem við fórum í Carnival í skólanum. Skrifa um það seinna ;)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég held hann hafi erft "engin dýr" genið frá þessari hlið fjölskyldunnar, svona considering hver er systir okkar og móðir og faðir...
held samt að ég hefði nú haldið mig í ákveðinni fjarlægð sosum.. en well..

Nafnlaus sagði...

Haha jamm hljómar líklega. Honum finnst gaman að dýrum... svo framarlega sem þau eru í hæfilegri fjarlægð... lol