Við fórum á okkar fyrsta foreldrafund í skólanum hans Henrys á föstudaginn. Við töluðum mest við talkennarann og var hún að segja okkur hvaða aðferðir hún notaði við að reyna að fá hann til að tala. Hún sagði að hann notaði bara sérhljóða og ráðlagði okkur að tala við lækninn hans til að fá tilvísun til einhvers konar taugalæknis. Það er víst eitthvað til sem gerir það að verkum að krakkar hafa ekki þá hreyfigetu í talfærum til að nota samhljóða og þarf þá að þjálfa það á einhvern hátt. Hún sagðist að sjálfsögðu ekki geta sagt hvort það væri málið hjá Henry þar sem hún er ekki læknir, en sagði að það gæti verið ein af ástæðunum og væri þess virði að láta sérfræðing athuga það, til að annaðhvort sanna eða afsanna.
Bæði Melissa kennari og Stacey talkennari og reyndar líka foreldra-og kennara milligöngumanneskjan Meredith sögðu allar að þær hreinlega dýrkuðu Henry. Eða eins og þær sögðu "We love him. I mean we really love love LOVE him". Þær sögðu að hann væri svo blíður og góður og þær sæju svo mikla framför hjá honum síðan hann byrjaði og það væri alveg frábært að vinna með honum. Þær vildu ekki að við flyttum og spurðu hvort það væri alveg víst að við vildum flytja. Þær vildu ekki missa hann. En þær sögðu líka að ástæðan fyrir að þær vildu ekki að við flyttum væri bara af sjálfselsku en ekki vegna þess að það væri slæmt fyrir Henry. Þær sögðu að prógramið í Frederick væri það sama og starfsfólkið þar væri alveg jafngott og hér og Henry myndi alveg gera það gott þar eins og hér.
Í gær klukkan 11 hringdi Meredith frá skólanum á meðan Henry var þar. Hún sagði strax að það væri allt í lagi með Henry, en ástæðan fyrir að hún hringdi var sú að hann hefði sagt eitt orð. Þær vildu láta mig heyra það í gegnum símann á meðan Stacey væri ennþá með hann. Svo heyrði ég að Stacey var að reyna að fá hann til að segja orðið aftur. Eftir svolitla stund kom svo orðið: "Mamma".
Þegar Henry kom heim spurði ég hann strax hvort hann gæti sagt "mamma". Hann sagði það undir eins. Svo þegar pabbi hans kom heim og ég ætlaði að láta Henry segja það aftur, þá vildi hann það alls ekki. Seinna um kvöldið sagði hann það svo loksins svo pabbi hans heyrði. Hann notar það ekki til að kalla á mig, því reyndar kallar hann aldrei á hvorugt okkar heldur kemur til okkar og sýnir okkur hvað hann vill.
Stacey sagði að hann væri farinn að reyna að herma eftir mörgum orðum en eins og ég sagði áður þá er það bara með sérhljóðum. "Mamma" er fyrsta orðið sem inniheldur bæði sér- og samhljóða. Þetta kemur vonandi allt saman fljótlega.
miðvikudagur, 16. maí 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
Kunna kvensurnar íslensku, kenndir þú þeim að segja mamma eða sagði hana "mum" ...
Gríðarlega spennt er ég við þessi tíðindi og ég hlakka ekkert smá til að koma og knúsann í ágúst :D
"Mamma" er nokkurn veginn alþjóðlegt sem gælunafn fyrir orðin "móðir", "mother" og ýmis fleiri tungumál. Þau voru að kenna honum að segja "mamma" sem Bandaríkjamenn nota og líka "mommy", en hann náði betur að setja "mamma". BTW Berglind, "mum" er breska!, "mom" ameríska" ;)
Ég vissi það sko! en .. afþví að ég er svo hrikalega bresk og smekkleg.. (og gerði alltaf mum vitlaust á stílum þangað til ég komst í svona 10. bekk.. ) þá held ég mig við mum! En já.. flott er þetta nú
Hahah... Linda Rós og breskan...?
Mikið var gaman að lesa þetta blogg, þetta er greinilega allt á réttri leið. Kær kveðja mamma/amma
Skrifa ummæli