miðvikudagur, 5. desember 2007

♪ Snjókorn falla, á allt og alla ♪

Allt í kafi í snjó! Það byrjaði að snjóa klukkan 8 í morgun og er búið að snjóa stanslaust núna þegar klukkan er 19:00. Ég lét Dan fara á bílnum í morgun að lestinni í stað þess að við Henry keyrðum hans eins og við gerum vanalega. Það var spáð þessari snjókomu og ég vildi ekki vera að keyra í slæmri færð þar sem við erum ekki með nagladekk eins og heima á Íslandi.

Ég fylgdist með sjónvarpsstöðinni sem er með fréttir frá skólum í sýslunni okkar, því þeir eru fyrstir með fréttir ef skólar eru lokaðir vegna veðurs. Það er ákveðið fyrir klukkan 5 á morgnana hvort skólar verða lokaðir eða ekki. Þeir greinilega ákváðu að senda krakkana í skólann, en þegar strætó kom að sækja Henry Hermann, þá sagði Bonnie bílstjóri að það væri strax komin slæm færð og mörg slys alls staðar. Hún hélt jafnvel að þeir myndi hætta við að hafa kennslu. Ég hélt áfram að fylgjast með sjónvarpsstöðinni, til að sjá hvort hleypt væri heim fyrr og það kom á daginn að það átti að hleypa heim úr skólum 2 tímum fyrr. Það er hins vegar miðað við heilan skóladag og þýddi þá klukkan hálf tvö. Það var líka sagt að krakkar sem væru hálfan daginn fyrir hádegi, yrðu eftir og færu heim með heilsdagskrökkunum klukkan hálf tvö.

Kennarinn hringdi í mig klukkan ellefu og sagði mér frá þessum fréttum, en venjulega er Henry Hermann búinn í skólanum klukkan hálf tólf. Svo hringdi hún aftur í mig klukkan hálf tólf og sagði mér að strætó hefði komið og krakkarnir í hennar bekk væru á leiðinni heim.

Henry Hermann komst semsagt heim heilu á húfi. Honum fannst snjórinn svaka skrítinn. Þegar við löbbuðum út í morgun og hann sá snjókomuna sagði hann: "Vá!" Svo þegar strætó kom þurfti ég hálfpartinn að draga hann út í snjóinn. Það var eins og hann vissi ekkert hvernig hann ætti að labba á þessum hvíta hlut.

Eftir að hann hafði tekið lúrinn sinn, þá klæddi ég hann upp og fór með hann út að leika í snjónum. Honum fannst það svaka gaman eins og sjá má á meðfylgjandi myndum :)











föstudagur, 9. nóvember 2007

fimmtudagur, 8. nóvember 2007

föstudagur, 2. nóvember 2007

Fundur og Hrekkjavaka

Videoblogg og myndir af Hrekkjavökunni.

Það eru smá hljóðtruflanir allavega mínu megin, en skilaboðin komast til skila að mestu.


Fyrsta myndin er af graskeri sem Dan skar út í tilefni af Hrekkjavökunni. Við settum kerti inní það og settum fyrir utan útidyrnar hjá okkur. Seinni myndin er af Henry Hermanni í búningnum sínum. Hann var svolítið úrillur ennþá eftir að vera vakinn af eftirmiðdagslúrnum sínum svo það var ekki auðvelt að taka mynd af honum. Skapið batnaði þó fljótlega þegar pabbi hans fór með hann að banka á dyr nágrannanna.

þriðjudagur, 30. október 2007

Mitt fyrsta videoblogg

Vonandi verða fleiri videoblogg í framtíðinni og með Henry Hermanni. Hann var að leggja sig á meðan á þessu bloggi stóð.

föstudagur, 22. júní 2007

Frederick

Við vorum búin að sækja um íbúð í íbúðaþyrpingunni Wellington Trace í Frederick borg. Við vildum upphaflega 4ja herbergja íbúð, en það var engin laus á því tímabili sem við þurftum að flytja þannig að Dan sótti um 3ja herbergja íbúð sem við vorum samþykkt fyrir. Fyrir nokkrum dögum var hringt frá Wellington Trace og sagt að 4ja herbergja íbúð myndi losna 25. júlí og gætum við fengið hana ef við vildum. Dan sagði að við gætum ekki flutt fyrr en í kringum 10. ágúst þar sem við værum með samning hérna sem rynni ekki út fyrr en þá. Maðurinn sagði að það væri allt í lagi, það tæki u.þ.b. 10 daga að hreinsa íbúðina og hafa hana tilbúna fyrir nýja leigjendur og þeir myndu halda íbúðinni fyrir okkur þangað til við gætum flutt inn ef við vildum. Við þyrftum samt að leggja inn tryggingu ef við vildum að þeir tækju íbúðina frá fyrir okkur.

Við fórum því í dag til Frederick, lögðum inn tryggingu og breyttum umsókninni þannig að hún gilti fyrir þessa 4ja herbergja íbúð. Hún er 500 dollurum ódýrari en íbúðin sem við búum í núna. ...... Og Beggó!... Byggingin sem íbúðin er í er næsta bygging við klúbbhúsið! Og það þarf ekki að fara inn í klúbbhúsið til að fara í sundlaugina, heldur er hlið opið beint að sundlauginni. Bara nokkur skref frá íbúðinni að sundlauginni maaarrr! Íbúðin er á 1stu hæð.

Mér líkar betur og betur við Frederick því oftar sem ég kem þangað. Það er svolítið skrítið að það er einhvern vegin ákveðin tilfinning sem kemur yfir mig. Veit ekki alveg hvernig ég get útskýrt það. Ég hef heyrt um fólk sem finnur fyrir einhverju á ákveðnum stöðum og er Hrönn vinkona þannig. Hún gengur inn í íbúð og hún annaðhvort finnur fyrir einhverju slæmu, kannski þó bara í ákveðnum hluta íbúðarinnar, eða hún finnur fyrir góðri orku... hvernig sem þetta nú virkar allt saman. Ég hef nú ekkert fundið mikið fyrir svona skyggnigáfu hjá mér og er ég nú ekkert heldur að sækjast mikið eftir því þar sem ég er nú svolítil skræfa. En það er svo skrítið að þegar ég kem á ákveðin stað á leið til Frederick, þá líður mér einhvern veginn betur. Veit ekki alveg hvernig á að útskýra það... jú... nú veit ég... Það er eins og ég anda léttar.

Mammsí, ég veit að þér líkaði nú ekkert svaka vel við Frederick, en þú sást bara örlítinn hluta borgarinnar og elsta hlutann. Ég verð nú samt að segja að ég meira að segja kann vel við þann hluta... finnst hann bara nokkuð krúttlegur ;)

Íbúðin er alveg á útjaðri borgarinnar og er næsta nágrenni hreinlega sveitin. Þið verðið öll sömul að koma og heimsækja okkur á þennan nýja stað. Ég held að við verðum örugglega ánægð á þessum stað.

laugardagur, 2. júní 2007

Afi

Ég hugsa oft um afa með söknuði í hjarta. Afi var stór hluti í lífi mínu þar sem ég ólst upp hjá honum. Hann sá um mig alla daga á meðan amma var í vinnunni og fór sjálfur í vinnu á næturna. Hann var viljugur að leika við mig og er það honum að þakka (eða kenna kannski) hversu gaman mér finnst að spila. Hann kenndi mér marga spilaleiki og spiluðum við mikið á daginn. Þar sem hann vann á næturna, þá var hann oft þreyttur á daginn og lá mikið fyrir. En hann fann samt uppá leik þar sem hann gat legið við að leika við mig. Hann fann uppá "fiðrildi" sem hann lék með hendinni. Fiðrildið flaug um og ég sá um fiðrildið eins og dúkku. Gaf því að borða, klæddi það í föt og svæfði það. Hann kenndi mér mörg lög sem við sungum saman. Ég man eftir einu atviki sem við hlógum að lengi á eftir. Við vorum að syngja "Þorraþræl" (Nú er frost á fróni) og sungum við það stanslaust aftur og aftur og aftur. Allt í einu hringir síminn og ég stekk up og hleyp og svara símanum. En í stað þess að segja "halló" segi ég: "Nú er frost á fróni!" Ég var frekar skömmustuleg en þetta var jafnframt mjög fyndið.

Þegar ég minnist afa, þá hugsa ég ekkert alltaf bara um það góða. Það er ekkert að því að hugsa eða tala um horfin ástvin hvort sem það er gott eða slæmt. Ég trúi því að afi sé núna á góðum stað og viti nákvæmlega hvað hann gerði rétt og hvað rangt á tíma sínum á jörðinni. Hann átti erfitt skap eins og allir vita og má kannski kenna þunglyndi um sem var kannski ekki greint nema af fjölskyldunni. Hann var náttúrlega ekki mikið fyrir "vitleysu eins og sálfræðinga" eða í neitt í þá átt fyrr en kannski seint á hans lífsleið. Örugglega ekki fyrr en ég fór sjálf til eins slíks.

Afi hafði samt góðan húmor og var alltaf að glettast og það er það sem ég minnist mest. Ég held að afi og Dan hafi fljótlega komist að því að þeir áttu vel saman og er það með furðu þar sem afi kunni ekkert í enskunni. En þeir gátu samt hlegið mikið að hvor öðrum. Dan var núna að spyrja mig um hvað ég væri að blogga og sagði ég honum að þetta væri afmælisdagur afa og væri ég að blogga um hann. Dan stakk tungunni út úr sér ullandi á mig og sagði: "He used to do this"... (hann var vanur að gera þetta) hehe. Það var annað sem afi kenndi Dan. Afi pirraði mig stundum með spurningum og þegar ég svaraði já eða nei, þá dró ég svarið á þann hátt: "jaaaaaaá" eða "neeeeeei". Afi svarað mér einu sinni þannig og var að stríða mér þegar Dan var hjá okkur og fannst Dan þetta fyndið. Hann notar þetta stundum á mig og segir hann við mig "jaaaaaaá" eða "neeeeeei".

Ef hlutir gerast sem ég veit að afa hefði fundist gaman að þá hugsa ég til hans. Ég fann nýlega tölvuforritið "Google Earth" þar sem hægt er að finna staði alls staðar á jörðinni eins og maður væri að fljúga yfir það og hægt er að fara alveg niður á götu. Þetta hefði afa fundist svakalega gaman að skoða og myndi áreiðanlega sitja yfir lengi ef hann hefði haft getu til. Honum fannst gaman að landafræði og var oft að skoða landakort. Honum fannst gaman að ferðast og hefði gert meira af því á sínum yngri árum ef hann hefði ekki verið svo hræðilega hræddur við að fljúga. En ég veit að núna getur hann séð yfir allt og alla og er ánægður og frískur.


Til hamingju með daginn afi.